17.500.000.000,- kr.
Við vorum eitthvað að röfla um það um daginn að Kaupfélag Dýrfirðinga og dótturfyrirtæki á Þingeyri áttu um 7000 tonna veiðiheimildir sem við misstum út úr höndunum. Samkvæmt nýjustu verðum á óveiddum fiski í sjónum í dag, átti það að jafngilda 1.750.000.000, –einum milljarði og sjö hundruð og fimmtíu milljónum króna.
Lagleg summa!
Páll Björnsson, skipstjóri á Þingeyri, hefur nú bent á að hér sé um að ræða 17,500,000,000,- sautján milljarða og fimm hundruð milljónir króna en ekki einn milljarð sjö hundruð og fimmtíu milljónir. Þarna höfum við heldur betur skriplað á skötunni og núllunum og þökkum Páli kærlega fyrir ábendinguna. Þetta eru svo skuggalegar tölur að mann rekur í rogastanz. Hugsið ykkur, lesendur góðir, hvílíkar stjarnfræðilegar upphæðir þjóðin hefur af gæsku sinni afhent kvótaaðlinum til eignar ef þeir fá að ráða. Svo neita þeir að gefa tommu eftir.
Hallgrímur Sveinsson.