Línuveiðarinn Fróði frá Þingeyri var byggður árið 1922. Skipið kom hingað til lands 1924 og var þá í eigu Þorsteins Eyfirðings. Í byrjun árs 1941 kom skipið úr klössun og hafði þá verið lengt töluvert.(123 smálestir brúttó en var áður 95 lestir) Línuveiðarinn Fróði var afar fengsæll og happadrjúgt skip á sinni tíð.
Fróði var staddur um 200 sjómílur suður af Vestmannaeyjum kl. 6 að morgni þann 11.mars 1941 á leið til Fleetwood á Englandi með fiskfarm þegar kafbáturinn U-74 réðst á skipið. Kafbáturinn skaut þremur skotum að skipinu og ákvað þá skipstjórinn á Fróða að láta stöðva vélarnar og skipaði áhöfninni að fara í bátanna þegar í stað. Á meðan áhöfnin var að bjástra við að sjósetja skipsbátinn hóf kafbáturinn nýja skothrinu og í millitíðinni hafði sprengikúla hæft brúna á Fróða sem sundraðist að mestu leiti og féllu þeir menn sem þar voru staddir. Björgunarbáturinn varð fljótt sundurskotinn og einn af þeim mönnum sem staddur var á bátadekkinu fékk í sig skot og féll örendur og skömmu síðar særðist skipstjórinn á Fróða lífshættulega.
Stýrimaðurinn fallinn.
Sverrir Torfason matsveinn var vakinn skömmu fyrir kl.6 um morguninn og sagt að verið sé að gera árás á skipið og að áhöfnin væri að fara í bátana. Á meðan hann var að klæða sig kom sprengikúlan í brúna fyrir ofan hann með miklum hvelli og splundraði yfirbyggingunni. Stjórnborðsmeginn í brúnni féllu tveir hásetar, (Gísli Guðmundsson og Guðmundur Stefánsson) en í dyrunum bakborðsmeginn féll stýrimaðurinn. (Sigurður Jörundsson) Allt umturnaðist í Stýrishúsinu og ljósin slokknuðu og brúin fylltist af gufusvækju þegar ofnpípa fór í sundur. Tveir aðrir menn voru í brúnni þegar sprengikúlan sprakk, skipstjórinn og einn háseti sem komst lífs af en vankaður eftir að hafa fengið kompásinn í höfuðið.
Vélstjórinn særður.
Þegar skipstjórinn kemur út á bátadekkið kemur önnur skothrina frá kafbátnum og tætir skipsbátinn í tvennt, rétt eins og hann hefði verið sagaður sundur. Sveinbjörn 1.vélstjóri brá sér þá inn í herbergi sitt til að sækja sér jakka en fær þá skot í báða handleggi sem komu í gegnum þilfarið stjórnborðsmeginn. Skömmu síðar særðist skipstjórinn þar sem hann stóð á bátadekkinu og kallar hann á Sveinbjörn að hann sé særður. Þrátt fyrir að Sveinbjörn væri illa leikinn skrönglaðist hann upp í brú til að sækja sjúkrakassann og ber hann niður á bátadekkið svo hægt sé að huga að sárum skipstjórans.
Stefnan tekin heim.
Sverrir skýst nú upp þegar skothríðinni linnti ásamt Guðmundi háseta. Þeir bera nú helsærðan skipstjórann niður í káetu og reyna að hjúkra honum þar. Þá er kallað til þeirra að það liggi særður maður á dekkinu. það var Steinþór Árnason og var hann illa sár. Sverrir og Guðmundur báru hann einnig niður í káetuna og reyndu að gera sitt besta til að hjúkra þessum mönnum. Eftir að hafa bundið um sár mannanna hófu þeir félaga að gera ráðstafanir til að sigla skipinu heim eftir leiðbeiningum skipstjórans og var stefnan tekin Norðvestur.
Það var orðið albjart þegar hér var komið og kafbáturinn horfinn af yfirborðinu. Kyndararnir tóku til höndunum við að koma vélinni á hreyfingu. Þeir sem voru uppistandandi könnuðu skemmdirnar á skipinu hágt og lágt. Það kom í ljós að kafbáturinn hafði skotið á skipið allt um hring. Um þetta leiti er verulega dregið af Steinþóri og andast hann skömmu síðar.
Skaftfellingur kemur til hjálpar.
Daginn eftir er Fróði staddur 90 sjómílur suður af Vestmannaeyjum og verða þeir þá varir við skip og gera vart við sig með því að skjóta upp flugeldum, (Talstöð þeirra hafði eyðilagst í skotárásinni). Þetta skip var Skaftfellingur og sendi skipstjórinn á honum skeyti til lands og bað um að skip yrði sent til aðstoðar Fróða.
Aðstoðarskipið fór á mis við þá um nóttina og kl 9 næsta morgun deyr skipstjórinn af sárum sínum. þá er Fróði kominn nærri landi og klukkan 16 þennan dag leggst fróði að Bryggju í Vestmannaeyjum. Af 11 manna áhöfn lifðu 6 skipverjar.
Þeir sem létust í árásinni voru: Gunnar Árnason skipstjóri, Sigurður V Jörundssonstýrimaður, Steinþór Árnason háseti (bróðir skipstjórans) Gísli Guðmundssonháseti og Guðmundur Stefánsson háseti.
Af vefsíðunni - Sagnabrunnur.