A A A
  • 1922 - Guðmundur Magnússon
  • 1942 - Sigurður Jónsson
Jónína Hrönn Símonardóttir
Jónína Hrönn Símonardóttir
Jónína Hrönn Símonardóttir er skagfirskur Dýrfirðingur eins og hún segir sjálf; uppalin á bænum Ketu í Hegranesi en kom til Þingeyrar fyrir 20 árum í ævintýraleit. Hún býr núna á Þingeyri ásamt manninum sínum, Hákoni Kristjánssyni, og þremur börnum þeirra.

 

Hverra manna ertu?
Ég er uppalin í Skagafirði, nánar tiltekið á bænum Ketu í Hegranesi. Dóttir hjónanna Símonar Eðvalds Traustasonar og Ingibjargar Jóhannesdóttur. Elst fjögurra systkina og þau vilja náttúrulega meina að ég sé líka frekust af þeim, en það er misskilningur.

Ég kom vestur að kenna eftir stúdentspróf haustið 1990 í ævintýraleit aðallega. Ég hafði aldrei komið á Vestfirðina þegar ég réð mig hingað og megin ástæðan fyrir því að ég sótti um á Þingeyri, en ekki einhverjum öðrum stað á Vestfjörðum, sem allir voru að auglýsa eftir kennurum á þeim tíma, var sú að ég var að vinna í búð á Sauðárkróki sem seldi harðfisk frá „Nonna Rebb" og þegar ég var eitthvað að velta stöðunum fyrir mér sagði vinnuveitandi minn: „Þú verður náttúrulega að fara til Þingeyrar, þar er lang besti harðfiskurinn". Svo hingað kom ég og kenndi fyrsta veturinn minn 3. bekk (árgangur 1982) fyrir hádegi og 5. bekk (árgangur 1980) eftir hádegi. Þetta var rosalega skemmtilegur vetur og í minningunni voru allir nemendurnir englar (mismiklir þó) og þetta var bara allt eitthvað svo skemmtilegt. Ég kynntist líka manninum mínum þennan vetur, svo það varð enn skemmtilegra. Hér erum við svo búin að búa síðan, eigum 3 börn, Berglindi Ingu 18 ára sem er við nám í FNV á Sauðárkróki, Arnar Loga 14 ára og Kristján Eðvald 9 ára, sem báðir eru hér í skóa. Ég kenni enn hér við Grunnskólann á Þingeyri og Hákon er á sjó á Júlíusi Geirmundssyni, frá Ísafirði.

 

Hvað er best við að búa á Þingeyri?
Ég sá það strax þegar ég kom fyrst vestur að ég hafði verið einstaklega heppin að „lenda" á Þingeyri, því Dýrafjörðurinn finnst mér langfallegasti fjörðurinn - ef ég á nú bara að vera alveg hreinskilin. Það besta við að búa á Þingeyri er hvað allir eru nánir. Ef eitthvað bjátar á eru allir boðnir og búnir að rétta fram hjálparhönd. Hér er líka frábært að vera með börn og ala þau upp, hér er bara frábært að vera.

 

Fallegasti staðurinn?

Ef ég á að nefna fallegasta staðinn get ég ekki gert upp á milli fjarðanna minna tveggja, Dýrafjarðar og Skagafjarðar, því eins ólíkir og þeir eru, finnst mér þeir báðir "fallegasti staður á landinu" í glampandi sól og blíðu.

 

Hvað ættu sem flestir að skoða/gera þegar þeir heimsækja Dýraförð?
Þeir sem koma að heimsækja Dýrafjörð ættu að vera hér í nokkra daga því hér er svo margt að skoða og gera. T.d. keyra út í Svalvoga - og helst hringinn fyrir Nes, ef þeir eru á góðum bíl, fara svo í fjallgöngu upp á eitthvert af þessum stórbrotnu fjöllum sem gnæfa yfir og taka sér góðan tíma í að njóta útsýnisins af fjallstindinum, enda síðan daginn í heita pottinum í bestu sundlaug Vestfjarða. Fyrir þá sem hafa áhuga á hestamennsku getum við státað af frábærri hestaleigu á Söndum og fullt af flottum útreiðarleiðum, golfvöllurinn er stórglæsilegur og þykir með þeim flottustu á landinu...............og það eru óþrjótandi möguleikar. Í Dýrafirði er bara yndislegt!

« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31