A A A
  • 1981 - Berglind Hrönn Hlynsdóttir
Lárus Hagalínsson og frú. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.
Lárus Hagalínsson og frú. Ljósm.: Björn Ingi Bjarnason.

Í Hvammi í Dýrafirði var ævafont gamalgróið bændasamfélag allt fram yfir miðja síðustu öld. Gamli Hvamms-ættbálkurinn hafði þá búið þar öldum saman. Að Hvammi bárust þó af og til utanaðkomnir menn.  
 

    Það var mikil tilhlökkun hjá börnunum í Hvammi, eins og börnum annarsstaðar í sveitum þessa lands, þegar kúnum var fyrst sleppt út á vorin. Og þá ekki síður hjá kúnum sjálfum sem fögnuðu frelsinu í orðsins fyllstu merkingu eftir sjö mánaða innistöðu. Þá var slett úr klaufunum og rassaköstin eftir því. 

     Það kom að þessari stund hjá kúnum í Hvammi, nú hjá kúnum á Neðribænum eins og hjá öðrum kúm í Hvammi, að þær fengju frelsi og þeim sleppt út í fyrsta sinn að vori. Það hefur verið ákveðið áður en farið var í fjósið um morguninn á Neðribænum, að eftir mjaltir skyldu kýr og kálfar sett út, og það kvisast milli bæja.  

   Í fjósinu voru óvenju margir gripir þetta vor, þeir voru: Snemmbæra með kálf sinn frá haustinu og vorbæra ennfremur með sinn kálf. Nú var mjöltum lokið. Fleytifullar fötur af spenvolgri mjólk, ekki amalegt það. Ekki var talið vogandi að skilja mjólkurföturnar eftir við fjósið þegar gripunum var sleppt út. Þeir feðgar fóru því fyrst heim með mjólkina, komu strax aftur, gengu rösklega til fjóss. Húsfreyjan stóð á dyrahellunni með silfurdósirnar sínar í hendi og strauk léttum fingrum.   Karl brá sér snaggaralega inn um gáttina á lágreistu fjósinu, en sonurinn tók sér stöðu í forinni utan dyra og stóð í báðar fætur gleiður, hann átti að taka á móti kúnum þegar þær kæmu út og draga úr hraða þeirra ef hægt væri.  Þetta var þannig fjós að þótt forin utandyra væri nær botnlaus þá var þannig háttað innan dyra, að þar fannst aldrei annað en góð og hrein mykja.

  Fyrst kom vorbæran sem var næst dyrum út með miklum látum og rassaköstum. Þá kom hennar kálfur væskilslegur. Næst kom kálfur haustbærunnar út í loftköstum, að sjá heiminn í fyrsta sinn. Sonurinn náði taki á halanum, en varð að sleppa. Svo hart brást kálfurinn við. Hann rann svo til beint í fjóshauginn sem var undir norðurvegg fjóssins. Sat þar fastur með mykjuna undir kvið. Látið var bíða að bjarga honum úr haugnum þar til síðar.  

   Þá kom síðari kýrin út, snemmbæran af úrvals kúakyni sem var á innsta bás, með gífurlegum fyrirgangi. Það brakaði og brast í þakviðum fjóssins. Sonurinn bjóst til að draga úr hraða skepnunnar sem setti undir sig hausinn svo sonurinn hafði það eitt uppúr sínum aðgerðum að liggja flatur milli þúfna.

   Í þeirri sömu andrá barst ógurlegt öskur innan úr fjósinu frá þeim gamla. Áhorfendur, sem voru þó nokkrir, höfðu tekið sér frí frá jarðnesku sýsli og stóðu  í höm skammt undan, auk fjölda barna. Þessum viðburðum fylgdi oftast nokkur skemmtan og þá hlátur.

   Áhorfendur skyldu ekkert í fyrstu í þessu öskri sem barst frá þeim gamla úr fjósinu. Þeim varð þó fljótlega starsýnt á snemmbæruna sem geystist, fór mikinn um völlinn,  því það vantaði á gripinn halann. Þegar sá gamli kom úr stallinum fram í básinn frá því að hafa losað hálsband snemmbærunnar, blasti við honum líflaus halinn af snemmbærunni hangandi í halabandinu. Í öllum látunum hafði gleymst að losa halabandið sem var úr hrosshárs fléttu, bundið uppí eina þaksperruna. Því hrikti svo í þakviðum fjóssins þegar snemmbæran geystist út.
 

   Fjósflórinn var hellulagður og mykjunni mokað daglega upp í kassa sem var á tunnustöfum, hann dregin út vetur sem sumar og losaður í mykjuþróna undir veggnum. Eftir þennan atburð, hafði snemmbærann ekkert til að verja sig með fyrir mýinu og öðrum ófögnuði. Enda mun hún fljótlega hafa tapað nytinni. Hún var höfð sem mest afsíðis og alls ekki til sýnis eftir þennan atburð. Sá gamli kom nú út og var enn nokkuð hávær í rómi, skældi sig í algrettu og talaði, að sagt var hebresku við soninn. Fór þaðan með drunum til konu sinnar, sem vart mátti halda geði sínu í föstum skorðum þó spök væri. Þau hurfu inn í kotið. Sá gamli hafði orðið til, að sagt var, af algerri slembilukku skyndikynna, ólíkra þjóðflokka úr heimsálfunum. 

   Fóstursonurinn á efsta bænum í efsta hafði spottandi tíst og smjattað á munnvatninu með bros um allt andlit. Á þessum árum fylgdi enn draugur hverri ætt í fjörðum vestra. Draugarnir voru einnig nefndir fylgjur. Þeir voru orðnir ákaflega fornir, sáust afar sjaldan, helst á fjósbitum eða í hlöðum/hey geilum. Þeir höfðu fylgt sumum kynstofnum í fimm og allt til átta ættliða. Hvamms-Móri var talinn vera orðin spakur þegar hér var komið, sást þó af og til sem fylgja á undan mönnum af hinni fornu Hvammsætt.

   Draugar voru taldir andar framliðina, jafnvel andar hunda. Þeir voru án efnisinnihalds að sagt var, þó afar öflugir ef kom til átaka. Þeir áttu það og til að villa mönnum sín. Þarna var talið að draugur hefði verið á fjósbita frá öðrum kynstofni og villt þeim gamla sín, með því að bregða hulu um halabandið,  þegar sá gamli  var að sinna snemmbærunni á básnum. Þetta þóttu firn mikil í Hvammi. Augun beindust að draug sem talinn var fylgja fjölskyldu sem kom af túndrunni undan Jökli í Hvamm í fardögum. Sú fjölskylda var af allt öðrum kynstofni, með allt annað blóð í æðum heldur en gömlu Hvammmararnir voru með í sínum æðum, sem  taldist vera afar hreint Írskt blóð.
       

   Það var margt talað/rætt, oft og lengi, um halalausu kúna í Hvammi og hvernig það bar að.  Þegar leið á, rak áhorfendum minni til að þeir hefðu séð reykjargufu koma út um fjósdyrnar þegar sá gamli rak upp öskrið í fjósinu um vorið. Þarna hefði draugurinn verið að forða sér. Aftur á móti var það mat manna á neðribæjum í neðsta, að halinn hafi verið gallaður eða skaddaður frá blautu kýrbeini! Enn aðrir töldu að sveitanautið hefði skaðað halann við embættisverk sín í síðasta umgangi.  

    Umræðan féll að mestu niður er heyannir hófust laugardaginn í 12. viku sumars. En að þeim loknum og er göngur voru afstaðnar spruttu þessar umræður upp aftur af enn meiri krafti en nokkru sinni fyrr og menn alls ekki á sama máli. Heimasætan á neðri bænum í neðsta, sem orðin var að mestu gjafvaxta, sló hælum í rass.

 En fóstursonurinn, sem fæddur var í kotrassi er bar nafnið Stóra-Rasskinn undir Hólahólum í Forsæludal, komst að ákveðinni  niðurstöðu eftir miklar vangaveltur, þanka og heimspekileg heilabrot. Hafði þá kvöld eftir kvöld troðið í pípustert sinn og lygnt augum. Niðurstaða hans var eftir alla þessa þanka, að halinn hefði brostið á fertugasta og fjórða lið!

Þessi ótrúlega saga/frásögn af snemmbærunni í Hvammi sem sleit af sér halann á þennan hátt er sönn! þó færð sé hér í búning. Ekki hafði þessi atburður nein teljandi eftirmál sem hér verður greint frá.

Lárus Hagalínsson frá Hvammi.  


« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30