Þrjátíu tonna skepna synti undir bátinn
Blaðamaður þáði kaffisopa hjá þeim skötuhjúum um borð í skútunni Elviru þar sem hún lá við bryggju á Flateyri, á æskuslóðum Hreins Ásgeirs, en hann er fæddur og uppalinn á bóndabænum Hrauni á Ingjaldssandi í Önundarfirði.
Ferðin yfir hafið gekk nokkuð vel, versta veðrið var á norsku ströndinni fyrstu sólarhringana eftir að við lögðum af stað frá Osló. Langanesið hér við Ísland tók líka ágætlega í,“ segir Hreinn Ásgeir Guðmundsson, en hann og kona hans, Mona Hauger, sigldu á skútu sinni, Elviru, frá Noregi til Íslands í sumar.
„Mér fannst ákveðin vonbrigði hversu gott veðrið var á leiðinni, ég var alltaf að bíða eftir alvöru veðri og vindi,“ segir Mona og hlær. „Mér finnst ekkert gaman að hanga í sólbaði á bátnum, ég vil hafa eitthvað að gera og veður til að takast á við.“
Þau voru fjórar vikur á leiðinni, sigldu fyrst til Hjaltlandseyja, þaðan til Færeyja og svo til Neskaupstaðar.
„En við stöldruðum líka við, bæði á Hjaltlandseyjum og í Færeyjum. Okkur finnst gott að koma í land og hitta fólk. Það var einstaklega gaman að koma til Færeyja, þessir frændur okkar eru yndislegt fólk. Og ekki var síðra að koma til Hjaltlandseyja, enduðum þar í skemmtilegu hófi með Norðmönnum sem voru líka þar á siglingu, en fólk innan skútuheimsins tekur hvert öðru opnum örmum.“
Snjóflóðin höfðu mikil áhrif
Hreinn Ásgeir er Vestfirðingur, fæddur og uppalinn á bóndabænum Hrauni á Ingjaldssandi við Önundarfjörð, en hann hefur búið í Noregi undanfarið 21 ár.
„Ég flutti úr landi rétt eftir snjóflóðin á Flateyri, en það breytti lífi mínu að mörgu leyti að taka þátt í að grafa eftir fólki í snjónum. Þetta var svo mikið sjokk á sínum tíma að það tók mig langan tíma að losna við þetta úr huganum. Þetta verður til þess að maður gerir aðra hluti í lífinu en maður hefði annars gert,“ segir Hreinn Ásgeir, sem var 29 ára þegar hann flutti út til Noregs með konu sinni og tveimur börnum. „Við ætluðum að vera þar í tvö ár, en eftir fjögur ár flutti konan heim með börnin í kjölfar skilnaðar en ég varð eftir í Noregi og hef verið þar síðan.“
Hreinn Ásgeir hefur starfað sem rafvirki öll sín ár í Noregi, meðal annas við báta, bæði skútur og annars konar báta.
„Þannig kviknaði skútuáhuginn hjá mér og við Mona eignuðumst okkar fyrstu skútu fyrir þremur árum. Sú var nákvæmlega eins og þessi sem við eigum núna, en hún eyðilagðist þegar eldingu laust niður í hana.“
Viljandi úti í vondum veðrum
Þau segja að í Noregi þurfi ekki að taka próf til að fá að sigla skútu, en Mona hefur slík réttindi í dag.
„Sá sem seldi okkur skútuna sýndi okkur hvernig þetta virkar með böndin og seglin. En þegar við keyrðum hana í fyrsta sinn ein á seglum var mikill vindur og svartaþoka, svo það var heilmikil eldskírn fyrir okkur, en líka góð æfing. Við höfum viljandi verið að þvælast á skútunni úti í leiðinlegum veðrum, til að læra sem mest af reynslunni. Við höfum upplifað leiðinlegustu siglingaaðstæður á Skagerak, leiðinni milli Danmerkur og Noregs, þar er mikill vindur frá Norðursjónum sem skellur á manni, við höfum lent þar í sjö metra ölduhæð. En þetta venst. Auk þess er ég ýmsum veðrum vanur héðan frá Vestfjörðunum,“ segir Hreinn Ásgeir og bætir við að eitt af því sem heilli við siglingarnar sé hið nýja sjónarhorn; að sjá landið frá sjó.
„Ég fékk gæsahúð þegar við komum núna siglandi út frá Hornströndum og ég sá heim til Vestfjarða. Ég þekkti fjöllin mín.“
Eldur um borð í svartamyrkri
Þau segjast njóta alls lífsins sem er á sjónum; fuglar og hvalir eru fastir fylgifiskar, en háskinn getur líka verið skammt undan. „Úti á Skjálfandaflóa synti skepna undir bátinn sem er þrisvar sinnum stærri en skútan, þetta var um 30 tonna hvalur og hann var svo nálægt að ég sá ekki á milli stefnisins og hvalsins. Við biðum með öndina í hálsinum og sluppum fyrir horn.“ Og oft má litlu muna, í fyrra kviknaði í rafmagnstöflunni inni í bátnum, en þá voru þau stödd í fjögurra tíma siglingafjarlægð frá landi í svartamyrkri, 15 metra vindi og fjögurra metra ölduhæð.
„Þá fór um okkur. En okkur tókst að slökkva eldinn og ég þurfti að taka rafmagnið af öllu en við það fór sjálfstýringin af, svo Mona fór upp á dekk til að stýra bátnum á meðan ég reyndi að gera það sem ég gat inni. Öll siglingaljós á bátnum fóru út og það var ekkert fjarskiptasamband. Við óttuðumst auðvitað umferð stórra skipa sem sæju okkur ekki. Þökk sé því að ég er rafvirki með sérþekkingu á rafkerfi báta gat ég komið á fjarskiptasambandi og látið vita af okkur ljóslausum,“ segir Ásgeir og bætir við að við erfiðar og hættulegar aðstæður sé mjög áríðandi að halda ró sinni.
Karabíska hafið framundan
Hreinn Ásgeir og Mona hafa verið saman undanfarin fimm ár og kunna vel við sig um borð í Elviru á siglingu um heimsins höf. Mona verður aldrei sjóveik en hann verður það aftur á móti ef ölduhæðin er mikil. Mona segir að draumur hennar hafi ævinlega verið að sigla, lifa skútulífi. „Það er gott að vera í sambandi þar sem draumarnir eru sameiginlegir. Siglingaáhugi þarf að vera fyrir hendi hjá báðum aðilum, því siglingar og undirbúningur fyrir þær taka allan okkar frítíma. Við vorum í 600 klukkutíma að fara yfir allt, ganga frá öllu og undirbúa skútuna áður en við lögðum í ferðina til Íslands.“
Mona segir að sig hafi lengi langað að sigla til Karabíska hafsins og nú séu þau að skipuleggja brottför þangað í apríl árið 2022.
„Siglingin hingað til Íslands er bara æfing fyrir það ævintýr,“ segir hún og hlær. „Við ætlum að taka heilt ár í það ferðalag, fyrst siglum við til Miðjarðarhafsins en þurfum að vera komin til Kanaríeyja í lok október, þaðan siglum við yfir hafið og dveljum yfir veturinn í Karabíska hafinu. Svo getum við valið hvort við förum aftur þvert yfir Atlantshafið eða upp amerísku ströndina, en við ætlum auðvitað að stoppa víða á leiðinni og dvelja og njóta. Skútulífið er gott líf og hér um borð höfum við allt sem við þurfum.“
Morgunblaðið 18. september 2017.
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is