A A A
  • 1957 - Sólborg Þorgerður Þorláksdóttir
  • 1979 - Þórhildur Björk Sigurðardóttir
  • 1984 - Sigurður Rúnar Ragnarsson
  • 2004 - Eva Katrín Larsdóttir
18.09.2017 - 08:08 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Hallgrímur Sveinsson,Björn Ingi Bjarnason

Þrjátíu tonna skepna synti undir bátinn

Á Flat­eyri Um borð í skút­unni um­vaf­in vest­firsk­um fjöll­um. Landrover­inn var ætlaður til að kom­ast á Ingj­aldssand. —Ljósm.:  Morg­un­blaðið/​Krist­ín Heiða
Á Flat­eyri Um borð í skút­unni um­vaf­in vest­firsk­um fjöll­um. Landrover­inn var ætlaður til að kom­ast á Ingj­aldssand. —Ljósm.: Morg­un­blaðið/​Krist­ín Heiða
« 1 af 2 »
Þau Hreinn Ásgeir og Mona Hauger teljast ung í skútuheiminum, hafa aðeins siglt í þrjú ár, en víluðu ekki fyrir sér að sigla frá Noregi til Íslands í sumar.

Blaðamaður þáði kaffisopa hjá þeim skötuhjúum um borð í skútunni Elviru þar sem hún lá við bryggju á Flateyri, á æskuslóðum Hreins Ásgeirs, en hann er fæddur og uppalinn á bóndabænum Hrauni á Ingjaldssandi í Önundarfirði.

Ferðin yfir hafið gekk nokkuð vel, versta veðrið var á norsku strönd­inni fyrstu sól­ar­hring­ana eft­ir að við lögðum af stað frá Osló. Langa­nesið hér við Ísland tók líka ágæt­lega í,“ seg­ir Hreinn Ásgeir Guðmunds­son, en hann og kona hans, Mona Hauger, sigldu á skútu sinni, El­viru, frá Nor­egi til Íslands í sum­ar.

„Mér fannst ákveðin von­brigði hversu gott veðrið var á leiðinni, ég var alltaf að bíða eft­ir al­vöru veðri og vindi,“ seg­ir Mona og hlær. „Mér finnst ekk­ert gam­an að hanga í sólbaði á bátn­um, ég vil hafa eitt­hvað að gera og veður til að tak­ast á við.“

Þau voru fjór­ar vik­ur á leiðinni, sigldu fyrst til Hjalt­lands­eyja, þaðan til Fær­eyja og svo til Nes­kaupstaðar.

„En við stöldruðum líka við, bæði á Hjalt­lands­eyj­um og í Fær­eyj­um. Okk­ur finnst gott að koma í land og hitta fólk. Það var ein­stak­lega gam­an að koma til Fær­eyja, þess­ir frænd­ur okk­ar eru ynd­is­legt fólk. Og ekki var síðra að koma til Hjalt­lands­eyja, enduðum þar í skemmti­legu hófi með Norðmönn­um sem voru líka þar á sigl­ingu, en fólk inn­an skútu­heims­ins tek­ur hvert öðru opn­um örm­um.“

 

Snjóflóðin höfðu mik­il áhrif

Hreinn Ásgeir er Vest­f­irðing­ur, fædd­ur og upp­al­inn á bónda­bæn­um Hrauni á Ingj­aldssandi við Önund­ar­fjörð, en hann hef­ur búið í Nor­egi und­an­farið 21 ár.

 

„Ég flutti úr landi rétt eft­ir snjóflóðin á Flat­eyri, en það breytti lífi mínu að mörgu leyti að taka þátt í að grafa eft­ir fólki í snjón­um. Þetta var svo mikið sjokk á sín­um tíma að það tók mig lang­an tíma að losna við þetta úr hug­an­um. Þetta verður til þess að maður ger­ir aðra hluti í líf­inu en maður hefði ann­ars gert,“ seg­ir Hreinn Ásgeir, sem var 29 ára þegar hann flutti út til Nor­egs með konu sinni og tveim­ur börn­um. „Við ætluðum að vera þar í tvö ár, en eft­ir fjög­ur ár flutti kon­an heim með börn­in í kjöl­far skilnaðar en ég varð eft­ir í Nor­egi og hef verið þar síðan.“

Hreinn Ásgeir hef­ur starfað sem raf­virki öll sín ár í Nor­egi, meðal ann­as við báta, bæði skút­ur og ann­ars kon­ar báta.

„Þannig kviknaði skútu­áhug­inn hjá mér og við Mona eignuðumst okk­ar fyrstu skútu fyr­ir þrem­ur árum. Sú var ná­kvæm­lega eins og þessi sem við eig­um núna, en hún eyðilagðist þegar eld­ingu laust niður í hana.“

 

Vilj­andi úti í vond­um veðrum

Þau segja að í Nor­egi þurfi ekki að taka próf til að fá að sigla skútu, en Mona hef­ur slík rétt­indi í dag.

 

„Sá sem seldi okk­ur skút­una sýndi okk­ur hvernig þetta virk­ar með bönd­in og segl­in. En þegar við keyrðum hana í fyrsta sinn ein á segl­um var mik­ill vind­ur og svartaþoka, svo það var heil­mik­il eld­skírn fyr­ir okk­ur, en líka góð æf­ing. Við höf­um vilj­andi verið að þvæl­ast á skút­unni úti í leiðin­leg­um veðrum, til að læra sem mest af reynsl­unni. Við höf­um upp­lifað leiðin­leg­ustu sigl­ingaaðstæður á Ska­gerak, leiðinni milli Dan­merk­ur og Nor­egs, þar er mik­ill vind­ur frá Norður­sjón­um sem skell­ur á manni, við höf­um lent þar í sjö metra öldu­hæð. En þetta venst. Auk þess er ég ýms­um veðrum van­ur héðan frá Vest­fjörðunum,“ seg­ir Hreinn Ásgeir og bæt­ir við að eitt af því sem heilli við sigl­ing­arn­ar sé hið nýja sjón­ar­horn; að sjá landið frá sjó.

„Ég fékk gæsa­húð þegar við kom­um núna siglandi út frá Horn­strönd­um og ég sá heim til Vest­fjarða. Ég þekkti fjöll­in mín.“

 

Eld­ur um borð í svarta­myrkri

Þau segj­ast njóta alls lífs­ins sem er á sjón­um; fugl­ar og hval­ir eru fast­ir fylgi­fisk­ar, en háskinn get­ur líka verið skammt und­an. „Úti á Skjálf­anda­flóa synti skepna und­ir bát­inn sem er þris­var sinn­um stærri en skút­an, þetta var um 30 tonna hval­ur og hann var svo ná­lægt að ég sá ekki á milli stefn­is­ins og hvals­ins. Við biðum með önd­ina í háls­in­um og slupp­um fyr­ir horn.“ Og oft má litlu muna, í fyrra kviknaði í raf­magn­stöfl­unni inni í bátn­um, en þá voru þau stödd í fjög­urra tíma sigl­inga­fjar­lægð frá landi í svarta­myrkri, 15 metra vindi og fjög­urra metra öldu­hæð.

 

„Þá fór um okk­ur. En okk­ur tókst að slökkva eld­inn og ég þurfti að taka raf­magnið af öllu en við það fór sjálf­stýr­ing­in af, svo Mona fór upp á dekk til að stýra bátn­um á meðan ég reyndi að gera það sem ég gat inni. Öll sigl­inga­ljós á bátn­um fóru út og það var ekk­ert fjar­skipta­sam­band. Við óttuðumst auðvitað um­ferð stórra skipa sem sæju okk­ur ekki. Þökk sé því að ég er raf­virki með sérþekk­ingu á raf­kerfi báta gat ég komið á fjar­skipta­sam­bandi og látið vita af okk­ur ljós­laus­um,“ seg­ir Ásgeir og bæt­ir við að við erfiðar og hættu­leg­ar aðstæður sé mjög áríðandi að halda ró sinni.

 

Kar­ab­íska hafið framund­an

Hreinn Ásgeir og Mona hafa verið sam­an und­an­far­in fimm ár og kunna vel við sig um borð í El­viru á sigl­ingu um heims­ins höf. Mona verður aldrei sjó­veik en hann verður það aft­ur á móti ef öldu­hæðin er mik­il. Mona seg­ir að draum­ur henn­ar hafi æv­in­lega verið að sigla, lifa skútu­lífi. „Það er gott að vera í sam­bandi þar sem draum­arn­ir eru sam­eig­in­leg­ir. Sigl­inga­áhugi þarf að vera fyr­ir hendi hjá báðum aðilum, því sigl­ing­ar og und­ir­bún­ing­ur fyr­ir þær taka all­an okk­ar frí­tíma. Við vor­um í 600 klukku­tíma að fara yfir allt, ganga frá öllu og und­ir­búa skút­una áður en við lögðum í ferðina til Íslands.“

 

Mona seg­ir að sig hafi lengi langað að sigla til Kar­ab­íska hafs­ins og nú séu þau að skipu­leggja brott­för þangað í apríl árið 2022.

„Sigl­ing­in hingað til Íslands er bara æf­ing fyr­ir það æv­in­týr,“ seg­ir hún og hlær. „Við ætl­um að taka heilt ár í það ferðalag, fyrst sigl­um við til Miðjarðar­hafs­ins en þurf­um að vera kom­in til Kana­ríeyja í lok októ­ber, þaðan sigl­um við yfir hafið og dvelj­um yfir vet­ur­inn í Kar­ab­íska haf­inu. Svo get­um við valið hvort við för­um aft­ur þvert yfir Atlants­hafið eða upp am­er­ísku strönd­ina, en við ætl­um auðvitað að stoppa víða á leiðinni og dvelja og njóta. Skútu­lífið er gott líf og hér um borð höf­um við allt sem við þurf­um.“

 

Morgunblaðið 18. september 2017.

Krist­ín Heiða Krist­ins­dótt­ir

khk@mbl.is


 



« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31