A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
Þorvaldur Veigar Guðmundsson.
Þorvaldur Veigar Guðmundsson.
Þorvaldur Veigar fæddist í Alviðru í Dýrafirði 15. júlí 1930. Hann lést 20. júní 2016.

Foreldrar hans voru hjónin Helga Þóroddsdóttir húsfreyja, f. 24. október 1905, og Guðmundur Helgi Guðmundsson, sjómaður og síðar símavörður, f. 27. apríl 1897. Systur Þorvaldar voru Sólveig, f. 23. september 1928, d. 4. janúar 1930, og Ragnheiður Ósk, f. 24. október 1937, d. 11. febrúar 2015.

Árið 1958 kvæntist hann Birnu Friðriksdóttur, f. á Húsavík 5. maí 1938. Foreldrar Birnu voru hjónin Gertrud Estrid Elise Friðriksson, f. Nielsen 15. febrúar 1902, og sr. Friðrik A. Friðriksson, sóknarprestur og prófastur, f. 17. júní 1896.

Börn Þorvaldar Veigars og Birnu eru:
1) Helga, f. 9. nóvember 1958. Maki Douglass Turner, f. 9. janúar 1955. Þeirra börn: a) Anna Birna, f. 13. ágúst 1996, b) Dylan Veigar, f. 11. febrúar 2000.
2) Sólveig, f. 1. júní 1961. Maki Valgeir Ómar Jónsson, f. 23. júlí 1955.
3) Arndís Björg, f. 19. nóvember 1973. Maki Geir Fenger, f. 29. desember 1981. Þeirra börn: a) Birna Rún, f. 23. september 2006, og Alma, f. 22. mars 2009.

Fyrstu sex æviárin bjó Veigar í Alviðru en þá fluttist fjölskyldan til Flateyrar og ári síðar til Ísafjarðar. Barnaskólaárin var hann öll sumur hjá afa sínum og ömmu í Alviðru.

Eftir landspróf lá leið hans til Reykjavíkur. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1951 og embættisprófi í læknisfræði frá HÍ 1959. Á námsárunum stundaði hann einnig sjómennsku, bæði á síldarbátum og togurum. Að námi loknu varð hann staðgengill héraðslæknisins á Raufarhöfn og héraðslæknir í Kópaskershéraði í rúmt ár og fékk almennt lækningaleyfi 1961. Þá var hann þrjú ár aðstoðarlæknir á Rannsóknardeild Landspítalans. Þaðan lá leiðin til London til framhaldsnáms og starfa í meinefnafræði 1964-1971. Hann lauk doktorsprófi frá University of London og fékk sérfræðileyfi í meinefnafræði 1970.

Haustið 1971 fluttist fjölskyldan til Íslands og settist að í Kópavogi þar sem Veigar og Birna bjuggu þar til þau fluttust til Reykjavíkur 1998. Eftir heimkomuna frá Englandi starfaði Veigar sem sérfræðingur, yfirlæknir og forstöðulæknir við Rannsóknardeild Landspítalans 1971-1995, var lækningaforstjóri Landspítalans 1995-2000, kenndi við læknadeild og tannlæknadeild HÍ og Tækniskóla Íslands nær óslitið 1971-1996. Veigar tók mikinn þátt í félagsmálum í sinni sérgrein, bæði innanlands og erlendis, og í kennslu- og stéttarfélagsmálum. Hann var m.a. formaður Læknafélags Reykjavíkur og Læknafélags Íslands. Hann var mikill útivistar- og náttúruunnandi og kunni afar vel við sig á fjöllum, við sjó og á ferðalögum til fjarlægra staða.

Útför hans fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 6. júlí 2016, klukkan 15.

__________________________________________________________________

 

Minningarorð Valgeirs Ómars Jónssonar

 

Úti var strekkingur, alskýjað og 12 stiga hiti þegar hann kom í heiminn, Þorvaldur Veigar Guðmundsson, í torfbæ við Alviðru í Dýrafirði, um miðjan júlí 1930. Alviðra hefur ætíð verið í hans huga nafli alheims. Ég kynntist Veigari frekar seint á lífsleiðinni er ég og dóttir hans rugluðum saman reytum. Hann var orðinn sjötugur og var um það bil að fara á eftirlaun, var samt með vinnu á sjúkrahúsinu Akranesi. Þá við hófum okkar fyrstu samræður urðum við sammála um tvennt, að Vestfirðir væru fjórðungurinn og gamla sjúkrahúsið á Ísafirði væri fallegasta hús landsins.

Veigar var, eins og móðir mín sáluga sagði, sprenglærður, hann var með embættispróf í læknisfræði frá Háskóla Íslands og doktorspróf frá University of London og með sérfræðileyfi í meinafræðum. Meðan hann var í námi stundaði hann sjómennsku á síðutogurum og síldarbátum. Frá okkar fyrstu kynnum sagði hann sögur um sjómennsku sína, ekki var hann að spjalla mikið um læknisfræðina, það var sjómennskan sem hann vildi halda á lofti.

Við Veigar áttum okkar ferðir um Ísland, fórum margoft til Vestfjarða, alltaf þurfti að koma við á Alviðru, keyra út í Arnarnes og helst fara út að Sæbóli á Ingjaldssandi og ganga um Ísafjörð, þetta voru hans staðir. Honum fannst mikið til þess koma hversu mikill Vestfirðingur ég var og hans systir var líka hissa, að ég, kærasti Sólveigar dóttur hans, skyldi þekkja einhvern í þessum fjórðungi. En svona lágu leiðir, við vorum báðir að vestan. Veigar var stoltur af sínum uppruna, hann var Vestfirðingur í húð og hár. Þegar við ferðuðumst um kjálkann þekktu hann ansi margir. Það var gaman að ferðast með þessum öðlingi um ævintýraheima Vestfjarða, þeir lifnuðu við, við mismunandi minni okkar um staðinn. Hann þekkti alla bæi í Djúpinu í línulegri röð frá því að hann hafði verið í vinnu hjá Matthíasi Bjarnasyni á skrifstofu Djúpbátsins.

Ég verð að segja að hann kom inn í mitt líf sem vinur og tengdafaðir, það var ekki hægt annað en að elska og virða þennan mann. Þakka þér fyrir allt.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

 

(Úr Hávamálum)

Ómar.

 

Morgunblaðið 6. júlí 2016.

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31