A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
Konungsskipið Birma á Flateyrarhöfn þann 10. ágúst 1907. Ljósm.: Hermann Wendel á Þingeyri.
Konungsskipið Birma á Flateyrarhöfn þann 10. ágúst 1907. Ljósm.: Hermann Wendel á Þingeyri.

Friðrik VIII. konungur Danmerkur og Íslands kom siglandi hingað til lands frá Færeyjum á konungsskipinu Birma ásamt fríðu föruneyti. Þar á meðal var forsætisráðherra Dana, embættismenn og foringjar úr danska hernum. Auk þess var gufuskipið Atlanta með í för, en innanborðs voru 40 ríkis- þingmenn á danska þinginu, blaðamenn og fleiri gestir. Auk þess fylgdu skipunum tvö beitiskip danska hersins, Geysir og Hekla.

Eftir nokkurra daga dvöl í Reykjavík og ferðalag austur á Þingvöll, að Geysi og Gullfossi, var siglt út Faxaflóa, fyrir Snæfellsnes og til Vestfjarða.

 Það var laugardaginn 10. ágúst 1907. Að kvöldi þess dags kasta skipin akkerum inni við Flateyri á Önundarfirði og höfðust þar við um nóttina.

Tveir danskir ritstjórar gáfu út bók um Íslandsferð konungs 1907 og þar segir: „Auðn og fásinni réðu ríkjum á þessum stað. Gróðurlaus fjöll og þungbúin risu á allar hliðar, svo að ekki sást í neinar áttir nema út á Íshaf, úfið og grátt. Undiraldan drundi í síðasta ljósgliti sólar, og timburhúsin á grýttum tanganum sýndust óhugnanleg og veðurbitin. Enginn trjágróður eða graslendi fjörgaði hjóstrugt umhverfi. Þarna ólu menn aldur frá vöggu til grafar, við fjöll og sæ, sanda og grjót ...“.

Og lifðu á þorskinum sem þeir drógu á seglskútum og árabátum og verkuðu í saltfisk. Auk þess höfðu Norðmenn reist hvalveiðistöð á Sólbakka, en nú var hún farin og fátt að sjá nema stór hvalbein sem minntu á þau miklu umsvif sem hvalstöðinni fylgdu.

Friðrik konungur og Hannes Hafstein ráðherra Íslands, sem slóst í för með konungi frá Reykjavík, gengu á land á Flateyri. Var það eini viðkomustaður konungs hér á landi sem ekki ver beinlínis á dagskrá. Gengu þeir saman um þorpið og heilsuðu heimafólki, enda Hannes kunnugur á Flateyri, þar sem hann hafði verið sýslumaður Ísfirðinga nokkru áður.

 Flateyringar stóðu fyrir utan hús sín, karlmenn, konur og börn og heilsuðu aðkomufólki blátt áfram og hjartanlega. Það var ekki á hverjum degi sem konungurinn og ráðherrann spásseruðu um fiskiþorp á Vestfjörðum.

 

Síðar í kvöldkyrrðinni á Önundarfirði gerðist nokkuð óvænt: „Þegar gengið var út á þilfar að máltíð lokinni, sáust allt í einu oss til mikillar undrunar stórir logar blossa við himin, uppi á háum fjallstindi. Þótti það stórfengleg sjón.“ Héldu menn í fyrstu að um eldgos væri að ræða, en slíkt gerist nú ekki á Vestfjörðum.

Hér voru á ferðinni ungir Flateyringar sem tóku sig til um kvöldið og drógu saman eldiviðarköst uppi á Klofningsheiði og kveiktu bál til heiðurs konungi og fylgdarliði hans. Vakti þetta óskipta athygli.

Skutull janúar 2008.

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31