Samþykkum líffæragjöfum fjölgar
Nærri lætur að tíundi hver Íslendingur hafi gefið samþykki sitt fyrir líffæragjöf við andlát. Í gegnum vef Embættis landlæknis getur fólk gefið samþykki sitt fyrir slíku eins og 8.175 manns hafa gert í ár. „Í kjölfar allrar umræðu um þessi mál og fregna um að líffæragjöf hafi bjargað lífi kemur kúfur og fólk tekur afstöðu,“ segir Jórlaug Heimisdóttir, verkefnisstjóri hjá Landlækni.
Dagurinn í dag, 9. september, er tileinkaður líffæragjöfum og -ígræðslum í Evrópu. Fjölmargar þjóðir eru sameinaðar í þessu átaki sem miðar að því að hvetja einstaklinga til að taka afstöðu til líffæragjafar jafnframt því að miðla upplýsingum um líffæragjöf og ígræðslu.
Ég hlakkaði til aðgerðarinnar
„Hvatning og andlegur stuðningur lækna og hjúkrunarfólks hjálpaði mér mikið þegar ég þurfti nýtt hjarta. Þetta frábæra starfsfólk var alltaf að stappa í mig stálinu, segja mér að þetta yrði ekkert mál og á endanum var ég farinn að hlakka til þess að komast í aðgerðina og á skurðarborðið,“ segir Jóhannes Kristjánsson skemmtikraftur. Hann fékk kransæðastíflu fyrir mörgum árum og allnokkru seinna – sumarið 2009 – alvarlegt áfall og þurfti í hjartaígræðslu í kjölfar þess. Jóhannes beið í nokkurn tíma eftir hjarta sem hentaði honum en það kom 31. ágúst umrætt ár. Klukkutíma eftir kvaðningu var hann lagður af stað með sjúkraflugvél til Gautaborgar í Svíþjóð og í aðgerð þar.
„Strax daginn eftir aðgerð var ég drifinn á fætur og fjórum dögum síðar gekk ég 750 metra eftir göngum sjúkrahússins. Gangurinn í þessu var ótrúlega hraður og það liðu ekki margar vikur uns ég var kominn á fullt hér heima. Í dag er ég frískur, hleyp upp á fjöll á æskuslóðum mínum vestur á fjörðum og lifi fínu lífi,“ segir Jóhannes, sem hvetur alla til að skrá samþykki sitt fyrir líffæragjöf, sé afstaða viðkomandi sú. Að gefa líffæri geti bjargað lífi og því sé til mikils vinnandi.
Morgunblaðið laugardagurinn 9. september 2017.