A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
Guðmundur G. Hagalín.  Teikning: Ómar Smári Kristinsson.
Guðmundur G. Hagalín. Teikning: Ómar Smári Kristinsson.

Húsnæðismál

 

Guðmundur Gíslason Hagalín, rithöfundur, var einn helsti atkvæðasmali Ísafjarðarkrata á velmektarárum kratanna í „rauða bænum”. Á kosningafundi fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1942 sagði Haukur Helgason í Odda, sem var frambjóðandi Sósíalistaflokksins, að jafnaðarmenn ættu að skammast sín fyrir að sumt húsnæði í eigu bæjarins væri ekki sæmandi mannabústaðir. Haukur kvaðst vita dæmi um gamla konu sem væri í einu herbergi í kjallaraholu í bænum. Þetta væri boðið upp á af jafnaðarmönnum, sem þættust vera í fylkingarbrjósti í baráttu fyrir hinar vinnandi stéttir og verndarar þeirra sem minnst mættu sín.

   Konan, sem Haukur var að tala um, var í fundarsalnum og sat á fremsta bekk. Næstur kom Hagalín í ræðustól. Hann sagði að Haukur Helgason væri að tala um að jafnaðarmenn byðu upp á slæmt húsnæði.

Hann kannaðist við húsnæðið en konan, sem um væri að ræða, væri alls ekki gömul. Þetta er ung kona á besta aldri, sagði Hagalín. Sú gamla á fremsta bekk dillaði öll af ánægju og atkvæði hennar var tryggt.

 

 

Landbúnaðarstefna Denna

 

Þeir voru fjörugir framboðsfundirnir í Vestfjarðakjördæmi hér fyrr á árum og eru reyndar ekki nema svipur hjá sjón nú á dögum, þar sem allir reyna að vera góðir við alla. Einnig skortir mjög húmor í frambjóðendur nú á dögum.

   Eitt sinn voru þeir að karpa á fundi á Þingeyri, kempurnar Matthías Bjarnason, fyrrum ráðherra, og Steingrímur Hermannsson („Denni dæmalausi“), fyrrum ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, líklega fyrir alþingiskosningarnar 1978.

   Það hafði orðið slys í fylgiskjali með þingsályktunartillögu Framsóknarflokksins, sem Hákon Sigurgrímsson hafði samið og sagði fyrir um hve stórt búr ætti að vera fyrir hverja minkalæðu og „hluta úr

högna“.

Matti Bjarna nuddaði Denna fyrst upp úr þessu á Alþingi og hélt því svo áfram á framboðsfundunum fyrir vestan. Denni var orðinn nokkuð pirraður á þessu þegar Matti spurði á Þingeyrarfundinum:

   Hvaða hluti af högnanum á að vera í búrinu hjá læðunni, Steingrímur minn?

 

 

Að bjóða upp í til sín

 

Í alþingiskosningunum 1974 fór Sighvatur Björgvinsson fyrst í framboð í Vestfjarðakjördæmi fyrir kratana. Vilmundur heitinn Gylfason var í öðru sæti og Bárður Halldórsson í því þriðja. Fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna voru þeir Karvel Pálmason og Jón Baldvin Hannibalsson. Allt sumarið höfðu menn verið að gera tilraunir til að sameina Alþýðuflokkinn og leggja Samtökin niður. Gylfi Þ. Gíslason lagði sig allan fram við sjálfan Hannibal Valdimarsson, kvennamanninn mikla, en allt kom fyrir ekki.

   Fyrir kosningarnar var óvenjudauft yfir fjölmennum framboðsfundi í Bolungarvík og var eitthvert slen yfir bæði frambjóðendum og kjósendum. Matthías Bjarnason, Vestfjarðagoðinn, hugsaði þá með sér að reyna að blása einhverju lífi í fundinn, og sagði leitt til þess að vita að þeir hefðu komið fram í tvennu lagi, kratarnir, eins og hefði verið puðað við að sameina þá. Enginn hefði lagt sig eins fram og Gylfi Þ. og það við sjálfan Hannibal.

Matti hélt áfram og sagði að þetta hefði virst vera að bera árangur, því að Gylfi hefði verið kominn upp í og grátbeðið Hannibal að snarast upp í til sín. Gylfi lyfti sænginni, sagði Matti, og Hannibal var sestur á rúmstokkinn. Það var ekkert eftir nema fara upp í og breiða sængina yfir, en það undarlega gerðist að Hannibal spratt upp og sagði Gylfa að hann kæmi ekki upp í.

Svo þagnaði Vestfjarðagoðinn og leit yfir salinn áður en hann bætti við:

Er nokkur hér inni sem hefur heyrt það fyrr að Hannibal hafi neitað að fara upp í þegar honum hefur verið boðið það?

 

 

Mannvitið úr Selárdal

 

Ólafur Hannibalsson, fyrrum bóndi í Selárdal í Ketildölum í Arnafirði, var um hríð varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum. Eitt sinn meðan ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sat að völdum (1991-1995) kom hann inn á þing fyrir Matthías Bjarnason.

   Ólafur sat dag einn í þingsalnum þegar bróðir hans Jón Baldvin utanríkisráðherra var í ræðustól og fór geyst. Þá vildi svo til að í salinn gekk Páll Pétursson á Höllustöðum, en hann stóð í mikilli orrahríð við Alþýðuflokkinn út af EES-samningnum sem þá var á döfinni. Páli varð hálfvegis um megn að sjá þá bræður báða komna inn á þing, hlammaði sér í sætið og hnussaði í honum. Nær samstundis rann uppúr honum þessi vísa:

 

Alltaf vex það meir og meir

mannvitið í þessum sal.

Eru þeir nú orðnir tveir

undan gamla Hanníbal.

 

 
 

 

 

 

 

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31