A A A
04.02.2017 - 06:56 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Fréttatíminn,Björn Ingi Bjarnason

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík í 150 ár -Stiklað á stóru í sögu félagsins frá stofnfundinum 3. febrúar 1867

Ingólfur Arnarson í ljósum.
Ingólfur Arnarson í ljósum.

Til þess að efla hag íslenskra iðnaðarmanna um miðja nítjándu öldina þurfti samtök, menntun og áræði og framkvæmdir.

Það varð hlutverk reykvískra iðnaðarmanna að stuðla að þessari þróun með stofnun Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík þann 3. febrúar árið 1867.

Stofnendur voru 31 reykvískur iðnaðarmaður og fór stofnfundurinn fram í húsi Landsprentsmiðjunnar. Um sex árum síðar var félagið nefnt Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík.

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík er hið þriðja elsta sem nú hefur starfað óslitið á Íslandi.

Samofin sögu Reykjavíkur

Það er táknrænt að stofnfundur Iðnaðarmannafélagsins skuli hafa verið haldinn í fyrsta húsi innréttinganna en Skúli Magnússon reisti það fyrir forstjóra þeirra.

Í þessu húsi bjó þá Einar Þórðarson prentari og rak þar einnig prentsmiðju, Landsprentsmiðjuna.

Saga Iðnaðarmannafélagsins er þannig samofin sögu Reykjavíkur með vöggu sína í hlaðvarpa Ingólfs Arnarsonar.

Árið 1869 stofnaði Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík kvöldskóla. Kennari við hann var Árni Gíslason leturgrafari en hann var lengi ritari félagsins.

Seinna var skólinn rekinn sem sunnudagaskóli og voru kennslugreinar: réttritun, uppdráttarlist, reikningur, danska, enska og söngur.

Rekstur skólans reyndist félaginu fjárhagslega erfiður og lagðist kennsla niður þann 1. febrúar árið 1890.

Á fundi í Iðnaðarmannafélaginu þann 31. mars árið 1901 kynnti stjórn félagsins áform um að koma á fót kvöldskóla með ákveðinni námsskrá fyrir iðnaðarmenn.

Á fundi þann 7. október árið 2003 gekk Jón Þorláksson verkfræðingur í félagið og á þessum sama fundi hafði hann framsögu um málefni skólans.

Hann upplýsti fundarmenn um sambærilegt skólahald erlendis og vildi hefja skólastarf samkvæmt nýjum reglum strax um næstu áramót.

Iðnskólinn settur á stofn

Skólahald með nýju fyrirkomulagi hófst við Iðnskólann í Reykjavík 1. október árið 1904.

Skólastjóri var skipaður Jón Þorláksson og fastur kennari Þórarinn B. Þorláksson, bókbindari og listamaður. Hann varð síðar skólastjóri við skólann. Kennslugreinar voru flatarteikning, rúmteikning, iðnteikning, íslenska, reikningur og danska.

En Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík lét ekki staðar numið. Mánuði eftir fyrstu setningu skólans lagði formaður félagsins, Knud Zimsen, fram teikningar af nýju skólahúsi. Samþykkt var að kaupa lóð Búnað- arfélagsins á mótum Vonarstrætis og Lækjargötu undir skólabyggingu.

Trésmiðjan Völundur tók að sér byggingu hússins samkvæmt tilboði sem hljóðaði upp á kr. 20.850,00. Kennsla hófst í nýju skólahúsi haustið 1906.

Gáfu styttuna af Ingólfi

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík beitti sér fyrir því að reist yrði minnismerki um Ingólf Arnarson.

Knud Zimsen, borgarstjóri og fyrrverandi formaður félagsins, hélt ræðu en formaður félagsins, Jón Halldórsson, afhjúpaði styttuna.

Hann sagði m.a.: „Háttvirta ríkisstjórn! Ég afhendi yður nú þessa mynd frá Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík, þessu landi og þessari þjóð til eignar og umráða; gerið svo vel og takið á móti henni og verndið hana frá árásum eyðileggingar að svo miklu leyti sem í ykkar valdi stendur.“

Á aldarafmæli sínu, árið 1967, gaf Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík borgarstjóraembættinu „há- tíðartákn“, keðju sem borgarstjóri ber við hátíðleg tækifæri. Keðjan er úr silfri, smíðuð af listamanninum Leifi Kaldal gullsmið.

Heimild: Imfr.is

 

Fréttatíminn 3. febrúar 2017.


« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30