Í tilefni Dýrafjarðarganga: - „Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja“ - 1. grein.
Gleði mikil var ríkjandi á Rauðstöðum í Borgarfirði, einum af innfjörðum Arnarfjarðar í fyrradag, 16. september 2017. Þá sprengdi samgönguráðherrann okkar fyrstu sprenginguna í gangamunna Dýrafjarðarganga, en hann er í landi Rauðstaða. Nokkru áður höfðu námu- og sprengjusérfræðingarnir frá Slóvakíu komið fyrir verndardýrlingi sínum, Sankti Barböru, til hliðar við gangamunnann. Fer vel á því. Í framhaldi af ráðherrasprengingunni sprakk svo ríkisstjórnin um kvöldið. Svo segja gárungarnir. En allir vita að ekkert samband er náttúrlega þar á milli.
Einar Benediktsson orti:
„Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja,
án fræðslu þess liðna sést ei, hvað er nýtt.“
Nú skulum við hyggja aðeins að fortíð jarðarinnar Rauðstaða til gagns og gamans við þessi merku tímamót í samgöngusögu Vestfjarða. Þeir góðu og hugrökku menn sem að verkinu standa gætu hugsanlega nýtt sér þann fróðleik og kannski fleiri. Gangamunninn er nefnilega aðeins nokkra metra frá bæjarstæði þeirrar ágætu jarðar í Auðkúluhreppi.
Rauðstaðir
Bærinn er kenndur við Rauð, sem var þriðji leysingi Ánar rauðfelds á Eyri (seinna Hrafnseyri). Hinir tveir voru Karl á Karlstöðum og Hjallkár á Hjallkárseyri, en þeir bæir eru utan Rauðstaða.
Fjallið fyrir ofan Rauðstaði heitir Rauðstaðafjall og í því er einmitt gangamunni Dýrafjarðarganga. Jörðin var að 12 hundruð að fornu mati. Eitt hundrað var eitt kýrverð eða sex ær loðnar og lembdar eins og menn muna!