A A A
  • 1957 - Sólborg Þorgerður Þorláksdóttir
  • 1979 - Þórhildur Björk Sigurðardóttir
  • 1984 - Sigurður Rúnar Ragnarsson
  • 2004 - Eva Katrín Larsdóttir
24.01.2017 - 06:59 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Í KAUPMANNAHÖFN: - Hugmynd varð að draumi

« 1 af 3 »

Blómleg menningarstarfsemi í Norðurbryggju í Kaupmannahöfn 
Framkvæmdastýran segir draum hafa ræst með tilkomu hússins 
Forseti Íslands býður Danadrottningu þangað á morgun

 

»Það er eitt að hafa fallega hugmynd en annað að láta drauminn rætast,« segir Færeyingurinn Karin Elsbudóttir, framkvæmdastýra Norðurbryggju, íslenskrar, færeyskrar og grænlenskrar menningarmiðstöðvar, við Morgunblaðið er blaðamaður kíkti í heimsókn til hennar í miðborg Kaupmannahafnar á dögunum.

 

Draumurinn sem rættist er starfsemin sem þar fer fram í þessu 250 ára gamla pakkhúsi á Norðurbryggju í Kristjánshöfn sem var löngum forðabúr Íslands, Færeyja, Grænlands. Þar eru stjórnarskrifstofur Færeyja og Grænlands auk sendiráðs Íslands, á þessum sögulega stað þar sem íslensk skip lögðust við festar hér á árum áður. Í þessum skipum voru ekki aðeins sjómenn, höfðingjar og önnur mikilmenni heldur einnig þeir sem höfðu villst af leið í lífinu og beið nauðungarvinna á Brimarhólmi.

 

Vinsæll ferðamannastaður

 

Í dag fer fram víðtæk og vinsæl menningarstarfsemi í húsinu, sem er nú á besta stað í Kaupmannahöfn eftir að brúin umdeilda frá Nýhöfn yfir til Kristjánshafnar var loksins tekin í notkun síðasta sumar, rúmum tveimur árum eftir áætluð verklok. Þar sem Nýhöfn er líklega vinsælasti ferðamannastaður borgarinnar eykur brúin umferð ferðamanna gríðarlega á svæðinu og ekki skemmir að hafa hinn heimsfræga og margverðlaunaða veitingastað Noma við hliðina á.

 

Rétt áður en ég fer inn í menningarsetrið skoða ég mig um á bryggjunni þar sem hið glæsilega þriggja mastra íshafsseglskip, Activ, smíðað 1951, liggur við festar. Gaumgæfi ég skipið áður en ég gef mig fram í móttökunni. Ég fæ leyfi til að skoða glæsilega listasýningu Rúríar og pakkhúsið sjálft sem er hálfgerður safngripur í sjálfu sér. Í skoðunarferð minni um húsið rekst ég hins vegar óvænt á Karin sjálfa. Við heilsumst og nú fæ ég leiðsögn um húsið.

 

Birki og grjót sem borðskraut

 

Á færeysku hæðinni fundar ríkisstjórn Færeyja og Karin biður mig því um að hafa ekki hátt er við kíkjum þangað inn. Því næst förum við upp á fimmtu hæð, þar sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, mun bjóða Margréti Danadrottningu og hennar fólki til veislu á morgun, miðvikudag, í hans fyrstu opinberu heimsókn sem þjóðhöfðingi Íslendinga. Á fimmtu hæðinni blasa við okkur tvær stórar sendingar. Tveir kassar af grjóti, annar úr íslenskri fjöru, en hinn með íslensku hrauni. Auk þess liggur á gólfinu knippi af birkitrjám. Þetta eru borðskreytingarnar fyrir miðvikudaginn.

 

»Okkur fannst fallegt að bjóða upp á sýnishorn af Íslandi fyrir okkar mikilvægu gesti,« segir Karin en fimmtu hæðina leigir Norðurbryggja oft út fyrir ráðstefnur og pallborðsumræður en þar eru einnig haldnir tónleikar og kvikmyndadagar sem menningarmiðstöðin selur inn á. Reksturinn segir Karin í raun sjálfbæran en menningarmiðstöðin á húsið og leigir hluta þess meðal annars til íslenska sendiráðsins, stjórnarskrifstofanna tveggja og Noma, en hugmyndin að staðnum fæddist í þessu umhverfi.

 

Noma ævintýri líkast

 

»Þessi blanda af viðskiptum og menningu eru að mínu mati holl nálgun á svona verkefni,« segir Karin og bætir við að fólk hafi hlegið að hugmyndinni um veitingastað sérhæfðum í norrænni matargerð. Það myndi aldrei ganga. Í dag er hins vegar þriggja mánaða biðlisti á staðinn þar sem algengt verð fyrir málsverð er rúmar 30 þúsund krónar. »Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með þróuninni á þessum stað.«

 

Karin segist hafa tekið eftir fjölgun heimsókna í menningarmiðstöðina eftir að brúin kom en áfram séu þó Danir og Íslendingar duglegir að sækja viðburðina. Prjónakaffi eru reglulegir viðburðir allt árið um kring í Norðurbryggju sem eru vel sótt af Íslendingum. Sérstaklega nýlega þar sem áhersla hefur verið á íslenska prjónahefð.

 

»Og það hefur einn karlmaður mætt á prjónakvöld,« sagði Karin og hlær. Um 25 manns mæta á minni viðburðina en allt að 300 manns sem sækja stærri prjónahátíðir þar sem íslensk fyrirtæki fá að kynna starfsemi sína. »Þarna erum við með glugga fyrir atvinnulífið. Það fær sinn stað hérna,« segir hún.

 

Kynningar og þorrablót

 

Á menningarnótt Kaupmannahafnar síðastliðið haust lék hljómsveitin Hjaltalín fyrir gestum á Norðurbryggju. Á síðasta ári var einnig boðið upp á íslenska kvikmyndadaga þar sem kvikmyndin Fúsi eftir Dag Kára var sýnd og Hrútar eftir Grím Hákonarson. Báðir leikstjórar tóku svo þátt í umræðum eftir sýningar. Boðið verður upp á svipaða dagskrá í mars á þessu ári.

 

Þorrablót er einnig á döfinni í byrjun febrúar en Karin vildi einnig sérstaklega minnast á hversu vinsælt skólastarfið sem fer fram á Norðurbryggju er. Dönsk skólabörn í Kaupmannahöfn, frá leikskólaaldri upp í menntaskóla, mæta á hverjum degi á Norðurbryggju til þess að læra um íslenska menningu og náttúru. Langvinsælasti liðurinn segir Karin er hin svokallaða jólastofa þar sem börn læra um íslenskar jólahefðir og fá að steikja sitt eigið laufabrauð.

 

»Við grínumst stundum með það að það sé erfiðara að fá borð í jólastofuna hjá okkur heldur en á Noma,« segir Karin og hlær. Það selst einnig alltaf snemma upp á íslensku bókmenntakvöldin í Norðurbryggju sem eru sérstaklega vinsæl á meðal Dana og vekja iðulega athygli gagnrýnenda ásamt kvikmyndakvöldunum, á jákvæðan hátt sem trekkir að.

 

Þarf að neita mörgum

 

Í nóvember síðastliðnum var boðið til samsætis með rithöfundinum Kristínu Marju Baldursdóttur en einnig hafa rithöfundar á borð við Gyrði Elíasson og Einar Má Guðmundsson boðið upp á sambærileg kvöld.

 

Karin segir það hægan leik að fá listamenn og fyrirtæki til þess að kynna starfsemi sína á Norðurbryggju og hún þurfi að neita mörgum sem sækja um. Lítið kaffihús er í anddyri byggingarinnar þar sem seldar eru ýmsar vörur sem endurspegla þær menningarlegu áherslur sem eru í gangi hverju sinni.

 

Karin segir verslunina mikilvæga af því að hún kynni þær vönduðu vörur sem koma frá löndunum og segir að Norðurbryggja reyni eftir fremsta megni að kynna atvinnulíf landanna þriggja.

 

83 þúsund manns sóttu Norðurbryggju á síðasta ári. 37 þúsund gestir sóttu menningarviðburði og meira en fimm þúsund af þeim gestum mættu að horfa á íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu á Evrópumótinu í Frakklandi. Karin og félagar nýttu sér það tækifæri og sýndu leikina á stórum skjá á bryggjunni en þar sá einmitt undirritaður Íslendinga leggja Englendinga að velli. Á meðan sú keppni stóð sá Karin samband þjóðanna endurspeglast vel í samstöðunni á bak við íslenska liðið.

 

»Maður fann meðan á þessu stóð vel vináttuna og bræðraböndin á milli landanna sem ná langt aftur í tímann,« segir Karin að endingu.

 

Morgunblaðið 24. janúar 2017.


« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31