A A A
  • 1927 - Rannveig Guðjónsdóttir
  • 1970 - RAIVO SILDOJA
09.06.2017 - 21:50 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Helgi Hjörvar 50 ára - Ræturnar í Valþjófsdal og vann í fiski á Þingeyri

 Helgi og Þórhildur með dætrunum þremur, þeim Maríu, Helenu og Hildi, lengst til hægri.
Helgi og Þórhildur með dætrunum þremur, þeim Maríu, Helenu og Hildi, lengst til hægri.
« 1 af 2 »

Þingsveinn sem varð svo alþingismaður

Helgi Hjörvar fæddist í Reykjavík 9.6. 1967 og ólst þar upp, að frátöldum þremur bernskuárum sem hann dvaldi með foreldrum sínum á Vestfjörðum og í Kaupmannahöfn. Hann gekk í Ísaksskóla, Æfingadeild KHÍ, og MH, stundaði heimspekinám við HÍ og lauk námskeiðinu Senior Managers in Government við John F. Kennedy School of Government í Harvard árið 2005.

Á æskuárunum var Helgi í Ballettskóla Þjóðleikhússins og tók þátt í ýmsum leiksýningum. Hann söng hlutverk Emils í Kattholti á vinsælli hljómplötu, útg. 1977.

Helgi var blaðburðardrengur og þingsveinn, vann m.a. í fiski á Hellissandi, Þingeyri og í Klakksvík í Færeyjum á unglingsárunum, var síðan lausráðinn blaðamaður á Þjóðviljanum, sinnti dagskrárgerð fyrir sjónvarp og vann við bóksölu.

Helgi var framkvæmdastjóri Blindrafélagsins 1994-98 og formaður félagsins 1996-98. Hann sat í stjórn Sjónverndarsjóðs og Blindrabókasafnsins og var stjórnarformaður hússjóðs Öryrkjabandalagsins 1998-2007.

Helgi var einn af hvatamönnum um samvinnu félagshyggjuflokkanna, tók þátt í stofnun Reykjavíkurlistans og starfaði að borgarmálum 1994-2006 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Reykvíkinga. m.a. átti hann sæti í borgarstjórn, borgarráði og var forseti borgarstjórnar 1999-2002.

Helgi sat í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur 1994-2002, Landsvirkjunar 1999-2006, Tæknigarðs, átti sæti í hafnarstjórn Reykjavíkur og stjórn Fasteignastofu Reykjavíkur. Helgi var formaður félagsmálaráðs Reykjavíkur og stjórnkerfisnefndar Reykjavíkur.

Helgi var kosinn á þing fyrir Samfylkinguna í Reykjavíkurkjördæmunum 2003. Hann gegndi þingmennsku til 2016, þar af sem þingflokksformaður 2013-2016. Á þingferlinum sat hann í ýmsum nefndum fyrir hönd jafnaðarmanna: Fjárlaganefnd, félagsmálanefnd, iðnaðarnefnd, sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, sérnefnd um stjórnarskrármál, utanríkismálanefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Helgi var formaður umhverfisnefndar og efnahags- og viðskiptanefndar.

Helgi sat í stjórnum Norrænu blindrasamtakanna, var fulltrúi Íslands í samningaviðræðum um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hann var fulltrúi á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, formaður þingflokks jafnaðarmanna í Norðurlandaráði og fulltrúi Norðurlandaráðs í Norðurskautsráðinu. Þá var hann forseti Norðurlandaráðs 2010 og stjórnarformaður Norræna menningarsjóðsins.

Fjölskylda

Kona Helga er Þórhildur Elínardóttir, f. 14.4. 1967, samskiptastjóri hjá Samgöngustofu. Foreldrar hennar: Elín Skeggjadóttir, fyrrv. ritari á Landspítalanum, og Þorvaldur Axelsson skipherra, sem lést árið 1997. Dætur Helga og Þórhildar eru Hildur, f. 15.10. 1991, lögfræðingur en maður hennar er Arnar Þór Pétursson; Helena, f. 22.1. 2003, nemi, og María, f. 26.11. 2005, nemi. Systkini Helga eru Hákon, f. 1976, smiður og ferðabóndi í Traustholtshólma, og Rósa María, f. 1980, doktorsnemi en maður hennar er Svanur Þór Bjarnason og eiga þau tvær dætur.

Foreldrar Helga eru hjónin Helga Hjörvar, f. 2.7. 1943, fyrrv. menningarforstjóri, og Úlfur Hjörvar, f. 22.4. 1935, d. 9.11. 2008, rithöfundur.

 

Morgunblaðið 9. júní 2017.


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31