A A A
  • 1929 - Jónas Ólafsson
15.02.2017 - 12:49 | Vestfirska forlagiđ,Hallgrímur Sveinsson

Gamanmál eru lífsnauđsynleg:- Ţađ vantar mikiđ ţegar húmorinn vantar!

Sigurđur Ţórđarson, stórbóndi á Laugabóli í Djúpi, á Fergusoninum. Hann er međ stóru pípuna sína sem enn er til.
Sigurđur Ţórđarson, stórbóndi á Laugabóli í Djúpi, á Fergusoninum. Hann er međ stóru pípuna sína sem enn er til.

Sannleikurinn er sá að  það vantar mikið þegar húmorinn vantar. Þetta segja flestir sem mark er á takandi. Sjáiði til dæmis gömlu vestfirsku stjórnmálajaxlana. Þeir geisluðu einfaldlega af gamansemi þegar  það átti við. Sögðu gamansögur, oftast græskulausar. Að ekki sé nú talað um sögurnar sem um þá sjálfa spunnust: Matthías Bjarnason, Sighvatur Björgvinsson, Sverrir Hermannsson, Össur Skarphéðinsson, Jón Baldvin, Guðmundur G. Hagalín. Svo nokkrir séu nefndir af handahófi. Meira að segja Jón Sigurðsson, alvörumaðurinn,  var hrókur alls fagnaðar ef svo bar undir og fór stundum með græskulaust gaman. Hann og frú hans höfðu boð heima hjá sér einu sinni í viku. Það var nokkurs konar Akademía Íslendinga í Kaupmannahöfn þeirra tíma. Það voru þeirra bestu og skemmtilegustu stundir sögðu margir sem þar mættu.  


   En hvernig ætli það sé með nútíma vestfirska stjórnmálamenn. Hafa þeir einhvern húmor til að bera? Þeirri spurningu verður ekki svarað hér.  Aftur á móti kemur hér einn léttur af Matthíasi Bjarnasyni og Sigurði á Laugabóli í Djúpi.

 

Snillingurinn Siggi á Laugabóli

Sigurður stórbóndi Þórðarson á Laugabóli í Djúpi var bróðir  Ólafs Þórðarsonar, forstjóra skipafélagsins Jökla. Eitt sinn sendi Ólafur bróður sínum forláta riffil með sjónauka í gegnum Matthías Bjarnason, sem þá var framkvæmdastjóri Djúpbátsins. Matthías sendi verkfærið náttúrlega með Djúpbátnum inneftir eins og skot. Svo kom Matthías að Laugabóli sumarið eftir að vanda.

   -Var ekki riffillinn góður sem Óli sendi þér?

   -Minnstu ekki á það verkfæri, svarar Sigurður. Það geigar ekki skot. Það er ekki hægt annað en hitta með þessu. Ég get sagt þér að hann Jónsi gamli hérna á Bjarnarstöðum  hinum megin við fjörðinn var eitthvað að hringja og nauða í mér að koma fyrir fjörð og skjóta fyrir sig hrút. Ég nennti ekki að vera að keyra alla þessa leið fyrir Ísafjörð, svo ég hringdi í karlálftina – þú veist að hann er nú orðinn hálfblindur -  og sagði honum að fara um kvöldið með hrútinn bara rétt út fyrir fjáhúsdyrnar af því að ég væri kominn með svo gott verkfæri og það eru nú ekki nema tveir kílómetrar yfir fjörðinn.

   Jónsi gamli kom klukkan níu um kvöldið út fyrir fjárhúshornið og hafði hrútinn í klofinu. Ég skaut svo yfir fjörðinn og hrúturinn steinlá.

   -Mikill andskotans snillingur ertu, Siggi, sagði Matthías.

   -Það er nú ekkert, sagði Sigurður, en ég dáðist að karlskrattanum að þora að hafa hrútinn í klofinu.

(Heimild Járnkarlinn eftir Örnólf Árnason, Skjaldborg 1993 og Vestfirskir stjórnmálamenn í blíðu og stríðu, Vestfirska forlagið 2014)  


« Júlí »
S M Ţ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31