A A A
11.09.2016 - 06:51 | Vestfirska forlagiğ,Morgunblağiğ,Kristinn Snæland

Ævintıraleiğin fyrir Sléttanes

« 1 af 4 »

Morgunblaðið 8. september 2002

Kristinn Snæland

Ævintýraleiðin fyrir Sléttanes

Síðastliðið haust fór ferðahópurinn "Vinaflokkurinn KGB 1995" í ferð um Vestfirði. KGB stendur fyrir Klúbbur gömlu bílanna. Kristinn Snæland segir frá ferð fyrir Sléttanesið sem var um margt eftirminnileg og glæfraleg á köflum.

FLOKKURINN lagði upp í byrjun júlí á tólf bílum, hinn stærsti Benz 0-309-húsbíll en hinn minnsti Suzuki Wagon R. Farið var um Dali að Reykhólum og þaðan um Þorskafjarðarheiði í Djúp og síðan um helstu ferðamannastaði á hringleiðinni suður firðina og Barðaströnd til baka að Reykhólum. Á þessari leið var komið víða við, m.a. í Skálavík, á Bolafjalli, í Selárdal, á Látrabjargi og á Rauðasandi. Einnig var mætt á hina miklu harmonikuhátíð á Ísafirði.

Hið sérstaka og óvenjulega við þessa hringferð var ferð hópsins frá Þingeyri í Dýrafirði, fyrir Sléttanes til Hrafnseyrar í Arnarfirði. Leið þessi liggur út Dýrafjörð sunnanverðan frá Þingeyri um Haukadal, fyrir Eyrardal og yfir Innriófæru eða Eyrarófæru í Keldudal.

 

Nutu leiðsagnar í Keldudal

 

Frá Þingeyri nutum við leiðsagnar fyrrum íbúa frá Arnarnúpi í Keldudal, þeirra Kristjönu S. Vagnsdóttur sem þar bjó til 1967 ásamt eiginmanni sínum Elís Þórarinssyni, en hann er nú er látinn, og barna þeirra Skúla og Þorgerðar.

Lítið er eftir af byggðinni í Keldudal utan kirkjunnar að Hrauni en hún var afhelguð 1971. Nokkrum árum síðar hafði hún mikið látið á sjá en hún stóð þá opin fyrir öllum veðrum og gluggar voru brotnir. Það að hún fauk ekki má væntanlega þakka þeirri fyrirhyggju við smíði kirkjunnar að grjóti hafði verið komið fyrir inni í veggjum hennar allan hringinn. Heimafólk úr dalnum tók sig loks til og sameinaðist um að lagfæra og vernda kirkjuna. Predikunarstóll og altaristafla sem höfðu verið fjarlægð úr kirkjunni voru endurheimt og kirkjunni komið í þokkalegt stand og í umsjá þjóðminjavarðar. Þegar kirkjan hafði verið gerð upp fór þar fram mikil hjónavígsla 4. ágúst 1984. Þá gengu samtímis í hjónaband fjögur systkini frá Arnarnúpi.

 

Um aldamótin 1900 bjuggu um 100 manns á 10 bæjum í Keldudal en árið 1967 fluttu síðustu íbúarnir burtu þegar Elís og Kristjana fluttu burt ásamt börnum sínum.

 

Ævintýrið hefst

 

Þegar Vinaflokkurinn fór frá Keldudal hófst hin eiginlega ferð okkar um ókunnar slóðir eyðibyggða. Síðasta byggt ból við Dýrafjörð sunnanverðan er Húsatún í Haukadal. Fyrsti bærinn sem komið er að í byggð Arnarfjarðarmegin er Auðkúla. Leiðin úr Keldudal liggur um svonefnda Ytriófæru en um hana opnaðist loks bílvegur 1973 þegar Elís Kjaran og Ragnar Kjaran sonur hans unnu hið magnaða verk að ryðja veg yfir Ófæruna um Hrafnholur sem eru mikilfenglegt hamrabelti þverhnípt hundruð metra niður í fjöru. Um hamra þessa nöguðu þeir feðgar sig áfram á lítilli jarðýtu eftir smásyllu og breikkuðu hana smám saman uns hægt var með lagni og aðgát að aka jeppa þar yfir. Svo tæp var þó syllan að þar sem þrengst var fyrir klett í beygju var ekki unnt að opna hurð bílsins klettamegin, svo nærri varð að fara. Þessi vegagerð var gerð í hálfgerðri óþökk vegagerðarinnar enda framkvæmd á kostnað feðganna. Um tíma var þessi vegagerð einnig vandamál sem lenti á vegagerðarmönnum því fyrir kom að fólk sem lagði á bíl í klettana gafst upp og nánast skreið til baka en vegagerðarmenn urðu að koma til og bjarga bílnum. Þá var gripið til þess ráðs að setja gilda keðja yfir veginn og myndarlegan lás. Höfðu ekki aðrir lykil en þeir sem töldust eiga brýnt erindi yfir Hrafnholurnar. Vegagerð ríkisins hefur nú um árabil annast veginn og bætt og lagfært m.a. kaflann yfir Hrafnholurnar svo nú eru þær ekki lengur sú ógn sem áður var.

Skammt innan Svalvoga er Hamarinn, lítil vík. Þar strandaði breski togarinn Langanes árið 1935 og fórst öll áhöfnin, nítján manns auk eins manns af öðrum breskum togara, sem gerði tilraun til bjargar. Enn má sjá hluta úr togaranum þarna í fjörunni.

 

Við héldum inn Arnarfjörðinn um Sléttanes og að Lokinhömrum en þá bjuggu þar að Hrafnabjörgum Sigríður Ragnarsdóttir sem lést árið 1998 og að Aðalbóli, Sigurjón Jónasson, sem enn kemur þar að vori með fé sitt og hverfur brott að hausti. Enn var erfið leið eftir eða um Skútabjörg að Stapa við Stapadal. Undir Skútabjörgum liggur vegurinn í stórgrýttri fjörunni sem er oft aðeins örfáir metrar að breidd, jafnvel rétt aðeins vegbreiddin. Á flóði og í óhagstæðum veðrum gengur sjór yfir veginn og þarf þá að sæta sjávarföllum. Þessi kafli getur á flóði og við slæmar aðstæður orðið ófær svo að viðgerð þarf til að opna hann á ný. Þarna eins og í Hrafnholunum slútir bergið yfir veginn svo lítil hætta virðist á grjóthruni á ökutækin. Þegar þessum ævintýralega kafla lýkur er komið í Stapadal og skammt er í Fossdal og er þá komið á sæmilegan fáfarinn sveitaveg og stutt að Álftamýri sem var kirkjustaður. Árið 1966 skemmdist kirkjan þar í ofviðri og var rifin nokkru síðar. Þaðan er ekið um Bauluhúsaskriður og yfir Tjaldaneseyrar og komið að Auðkúlu sem er fyrsti bærinn í byggð sem komið er að við norðanverðan Arnarfjörð en milli Auðkúlu og Hrafnseyrar er komið á hringveginn um Vestfirði undir Hrafnseyrarheiði.

 

Að lokinni þessari undursamlegu ævintýraferð gerðum við okkur svefnstað við hinn fagra foss Dynjanda við Dynjandisvog. Lauk þar stórkostlegum degi sem seint gleymist.

 

Nánast fyrsta gírs keyrsla

 

Þessi leið fyrir Sléttanes úr Haukadal í Dýrafirði að Hrafnseyri í Arnarfirði er lauslega mæld um 40 kílómetrar og a.m.k. 15 þeirra afar seinfarnir, nánast fyrsta gírs keyrsla. Hér er mælt með því að ætla sér ekki minna en heilan dag í þetta ferðalag. Minjar um ver, útræði og eyðibýli eru margvíslegar og svæðið mikil söguslóð sem vert er að kynna sér í árbók Ferðafélags Íslands frá 1999 og í bókinni Firðir og fólk 900-1900, Vestur-Ísafjarðarsýsla, eftir Kjartan Ólafsson.

Þess skal getið að þótt við höfum ekið þetta á fólksbílum svo sem 25 ára gömlum Volvo, Subaru Legacy og Suzuki Wagon R. auk stærri bílanna, þá ætti enginn að reyna að fara þetta einbíla á fólksbíl og alls ekki án þess að fræðast fyrst hjá vegagerðarmönnum eða upplýsingaþjónustunni á Þingeyri um ástand vegarins, sérstaklega þann hluta sem um Skútabjörg liggur. Jeppamenn mættu athuga að fjaran undir Skútabjörgum getur líka reynst þeim ófær og illt væri að eiga þar glæsilegan ofurjeppa fastan á aðfalli við stífan álandsvind.

 

Þjóðveginn um Hrafnseyrarheiði má aka milli Þingeyrar og Hrafnseyrar á um það bil hálfri klukkustund á góðum vegi, en ógleymanleg verður för um Sléttanes sé aðgát og forvitni með í för.

Morgunblaðið 8. september 2002

Kristinn Snæland

« Júní »
S M Ş M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30